Section #
Segment

Hér má lesa um helstu niðurstöður um áhrif Hvammsvirkjunar á landslag og ásýnd.

Section #Nidurstada
Segment

Niðurstaða

Heildaráhrif Hvammsvirkjunar á landslag og ásýnd lands eru metin óverulega neikvæð til talsvert neikvæð eftir því um hvaða landslagsheild er að ræða.

Athugunarsvæðinu umhverfis Hvammsvirkjun var skipt upp í sjö landslagsheildir. Hver heild var skoðuð með tilliti til ásýndar, gildis landslags og nýtingar svæðisins. Einkenni áhrifa Hvammsvirkjunar eru metin bein, óafturkræf að mestu og varanleg innan þriggja landslagsheilda; 1 (Þjórsá, bakkar hennar og hólmar), 3 (Fossnes) og 6 (Þjórsárhraun og Skarðsfjall). Sjónrænna áhrifa gætir víðar en áhrif á ásýnd eru þó talin óverulega neikvæð utan þessara þriggja landslagsheilda.

Section #
Segment
Segment

Áhrif á ásýnd og landslag

Á kortinu má lesa niðurstöður mats á umhverfisáhrifum á landslag og ásýnd eftir landslagsheildum.

Section #
Segment

Vegna umfangs beinna áhrifa er vægi áhrifa á landslag og ásýnd talið vera talsvert neikvætt innan landslagsheilda þar sem virkjunarmannvirki eru staðsett. Það á einnig við um landslagsheildir sem liggja nálægt virkjunarmannvirkjum. Um er að ræða landslagsheildir 1 (Þjórsá, bakkar hennar og hólmar), 3 (Fossnes) og 6 (Þjórsárhraun og Skarðsfjall). Áhrif á aðrar landslagsheildir innan áhrifasvæðis Hvammsvirkjunar verða óverulega neikvæð.

Segment
Section #Lysingaumhverfisahrifum
Segment

Lýsing á umhverfisáhrifum

Með tilkomu Hagalóns mun fjölbreytt landslag við Þjórsá og bakka hennar breytast. Eyjur, hólmar og flúðir fara á kaf og vatnsbakkar árinnar verða beinni og einsleitari meðfram varnargörðum og vegi. Slík einföldun á landslagi mun hafa áhrif á ásýnd lands á nærsvæði árinnar og á útsýni frá aðliggjandi svæðum. Einsleitara landslag veldur því að mannvirki virkjunar verða líklegri til að draga til sín athygli. Rennsli Þjórsár neðan stíflu mun minnka frá því sem nú er á 2,7 kílómetra kafla. Rennsli neðan frárennslisskurðar verður óbreytt frá því sem það er í dag.

Ný mannvirki eru staðsett í landslagi þar sem talsvert er af byggingum fyrir. Miðað við aðrar byggingar á svæðinu eru mannvirkin stór. Landslag á framkvæmdasvæðinu er hinsvegar fremur grófgert með háum rofbökkum, holtum og Skarðsfjalli, og vel til þess fallið að laga mannvirki að landi. Mannvirki sem standa hátt, eins og tengivirki og háspennumöstur, verður erfiðara að fella að landi. Frá flestum útsýnisstöðum fellur ásýnd mannvirkjanna í land svo að þau bera ekki við himinn.

Fjöldi og stærð háspennulína er óbreytt en fjögur möstur verða færð.

Stífla við Ölmóðsey, aðrennslis- og frárennslisskurðir falla nokkuð vel að landi og eru aðeins sýnileg frá afmörkuðu og litlu svæði. Aðrennslispípa, aðkomugöng og frárennslisgöng munu ekki sjást. Raskað land ofan á pípunni verður sýnilegt en lagfært að loknum framkvæmdum með landmótun.

Endurbygging og færsla Þjórsárdalsvegar norðan Þjórsár ofar í landi Minni-Núps og um land Fossness á um þriggja kílómetra kafla hefur áhrif á ásýnd lands og landslag.

Efni sem fellur til við framkvæmdina verður nýtt til uppgræðslu á rofsvæðum og verða stór svæði endurheimt fyrir landbúnaðarafnot.

Section #Samanburdurfraarinu2003
Segment

Samanburður við mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2003

Niðurstöður þessa mats á áhrifum á landslag og ásýnd lands eru í samræmi við niðurstöður fyrra mats frá árinu 2003. Í samræmi við ákvörðun Skipulagsstofnunar um endurskoðun mats á umhverfisáhrifum tveggja þátta fyrir Hvammsvirkjun eru niðurstöðurnar nú undirbyggðar með nýrri upplýsingum og ítarlegri greiningum. Ítarlegri samanburð má lesa í kaflanum um heildaráhrif.

Section #Motvaegisadgerdir
Segment

Mótvægisaðgerðir

Með mótvægisaðgerðum er leitast við að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta fyrir neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdar. Unnið verður að heildrænni ásýnd svæðisins með vandaðri útlitshönnun, landmótun, efnisvali, uppgræðslu og skógrækt. Til að viðhalda fjölbreytileika svæðisins verður unnið með lit, áferð og form mannvirkja og leitast verður við að milda áberandi manngerðar línur svo þær falli vel að landslagi. Nánar má lesa um mótvægisaðgerðir hér.

Section #
Segment

Ítarefni

Hér má sækja matsskýrslu Hvammsvirkjunar.

Í kafla 5 má lesa nánar um áhrif á landslag og ásýnd lands.

Matsskýrsla 2017  

22 MB PDF