Section #
Segment

Niðurstöður mats á umhverfisáhrifum

Niðurstöður vegna mats á umhverfisáhrifum Hvamms­virkjunar á þá tvo umhverfisþætti sem nú eru til endurskoðunar, og vegna breytinga á Búrfellslínu 1, eru metin óverulega neikvæð á ferðaþjónustu og útivist. Áhrif mismunandi þátta framkvæmdar, að mótvægisaðgerðum meðtöldum, á landslag og á ásýnd lands eru metin óverulega neikvæð til talsvert neikvæð eftir því um hvaða landslagsheild er að ræða.

Section #Samantektaheildarahrifum
Segment

Samantekt á heildaráhrifum

Landslag og ásýnd lands

Við mat á umhverfisáhrifum vegna Hvammsvirkjunar var athugunarsvæði virkjunarinnar greint í svokallaðar landslagsheildir. Um er að ræða sjö svæði sem hvert um sig ber sömu landslagsþætti (t.d. fjöll, ár og vötn) og landslagseiginleika (t.d. form, litir, áferð og línur). Einkenni áhrifa Hvammsvirkjunar eru metin bein, óafturkræf að mestu og varanleg innan þriggja landslagsheilda; 1 (Þjórsá, bakkar hennar og hólmar), 3 (Fossnes) og 6 (Þjórsárhraun og Skarðsfjall). Sjónrænna áhrifa gætir víðar en áhrif á ásýnd eru þó talin óveruleg utan þessara þriggja landslagsheilda.

Segment

Hagalón

Með tilkomu Hagalóns mun fjölbreytt landslag við Þjórsá og bakka hennar breytast. Eyjur, hólmar og flúðir fara á kaf og vatnsbakkar árinnar verða beinni og einsleitari meðfram varnargörðum og vegi. Slík einföldun á landslagi mun hafa áhrif á ásýnd lands á nærsvæði árinnar og á útsýni frá aðliggjandi svæðum. Einsleitara landslag veldur því að mannvirki virkjunar verða líklegri til að draga til sín athygli. 

Rennsli

Rennsli Þjórsár neðan stíflu mun minnka frá því sem nú er á 2,7 kílómetra kafla. Rennsli neðan Ölmóðseyjar verður óbreytt frá því sem það er í dag.

Mannvirki

Ný mannvirki eru staðsett í landslagi þar sem talsvert er af byggingum fyrir. Miðað við aðrar byggingar á svæðinu eru mannvirkin stór. Landslag á framkvæmdasvæðinu er hinsvegar fremur grófgert með háum rofbökkum, holtum og Skarðsfjalli, og vel til þess fallið að laga mannvirki að landi. Mannvirki sem standa hátt, eins og tengivirki og háspennumöstur, verður erfiðara að fella að landi. Frá flestum útsýnisstöðum fellur ásýnd mannvirkjanna í land svo að þau bera ekki við himinn.

Háspennulínur

Fjöldi og stærð háspennulína er óbreytt en fjögur möstur verða færð.

Þjórsárdalsvegur

Endurbygging og færsla Þjórsárdalsvegar norðan Þjórsár ofar í landi Minni-Núps og um land Fossness á um þriggja kílómetra kafla hefur áhrif á ásýnd lands og landslag. 

Uppgrafið efni

Efni sem fellur til við framkvæmdina verður nýtt til uppgræðslu á rofsvæðum og verða stór svæði endurheimt fyrir landbúnaðarafnot.

Annað

Stífla við Ölmóðsey, aðrennslis- og frárennslisskurðir falla nokkuð vel að landi og eru aðeins sýnileg frá afmörkuðu og litlu svæði. Aðrennslispípa, aðkomugöng og frárennslisgöng munu ekki sjást. Raskað land ofan á pípunni verður sýnilegt en lagfært að loknum framkvæmdum með landmótun.

Segment

Samantekt á heildaráhrifum

Ferðaþjónusta og útivist

Áhrif Hvammsvirkjunar, ásamt tengivirki og breytingum á Búrfellslínu 1, á ferðaþjónustu og útivist eru talin óverulega neikvæð á öllu áhrifasvæðinu.

Segment

Ferðaþjónusta

Ekki er talið líklegt að ferðafólki á svæðinu muni fækka að ráði verði Hvammsvirkjun að veruleika. 63% erlendra gesta og 53% Íslendinga álitu að Hvammsvirkjun myndi engin áhrif hafa á komur þeirra. Um 22% erlendra gesta og 38% Íslendinga á svæðinu töldu að þeir myndu síður koma og 15% erlendra gesta og 9% Íslendinga sögðust myndu frekar koma.

Meirihluti þátttakenda í könnun meðal íbúa og sumarhúsaeigenda taldi að framkvæmdirnar myndu hafa jákvæð (49%) eða engin áhrif (21%) á ferðaþjónustu á svæðinu. Meðal fagfólks í ferðaþjónustu voru hinsvegar fleiri ósammála (56%) en sammála (22%) að Hvammsvirkjun og uppbygging ferðaþjónustu færi vel saman.

Útivist

Helstu beinu áhrif framkvæmdarinnar á útivist eru staðbundin áhrif á reið- og gönguleiðir. Leiðirnar verða lagfærðar og/eða færðar til að framkvæmdum loknum. Áhrifin eru áhrifin talin óverulega neikvæð.

Bein áhrif verða einnig á möguleika til stangveiði næst virkjuninni. Tekið skal fram að hér eru ekki metin áhrif Hvammsvirkjunar á lífríki Þjórsár, heldur fjallað um veiði sem útivistarmöguleika fyrir ábúendur og ferðafólk. Með hliðsjón af fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum til verndunar vatnalífríkis í Þjórsá er talið að möguleikar ábúenda til stangveiði í Þjórsá og þverám hennar verði ekki skertir.

Þá má gera ráð fyrir því að á framkvæmdatíma muni aukin umferð þungaflutningavéla hafa áhrif á upplifun fólks af svæðinu.

Sjónræn áhrif

Helstu neikvæðu áhrif Hvammsvirkjunar á ferðaþjónustu og útivist eru sjónræn eðlis. Mestu áhrifin verða á svæðinu upp með Þjórsárdalsvegi, frá virkjun og upp fyrir Yrjasker, einkum vegna aukinnar manngerðar svæðisins (stífla, stíflugarðar og lón).

Ekki er talið að áhrifin verði teljandi á það ferðafólk sem á leið um svæðið. Mest verða áhrifin í fyrrum Gnúpverjahreppi næst virkjun þar sem útsýni mun breytast og land fer undir vatn. 

Segment

Ítarlegri niðurstöður á mati á áhrifum á landslag og ásýnd má lesa hér og á ferðaþjónustu og útivist hér.

Section #
Section #Samanburdurvidmat2003
Segment

Samanburður við mat á umhverfisáhrifum 2003

Niðurstöður nýs mats á umhverfisáhrifum fyrir þá tvo umhverfisþætti sem nú eru til endurskoðunar eru í samræmi við niðurstöður fyrra mats frá árinu 2003. Niðurstöðurnar byggja nú á nýrri upplýsingum um fjölda ferðamanna og framboð ferðaþjónustu á svæðinu, umfangsmeiri könnunum meðal ferðamanna, ferðaþjónustuaðila, íbúa og sumarhúsaeigenda og ítarlegri greiningu á áhrifum á ásýnd lands og landslag.

Section #
Segment

2003

Niðurstaða matsskýrslu

 • Sammögnuð sjónræn áhrif af byggingu virkjunar metin mikið neikvæð og talsverð neikvæð af starfsemi virkjunar.

2017

Niðurstaða matsskýrslu

 • Áhrif Hvammsvirkjunar umfangsmikil, óafturkræf að mestu og varanleg.
 • Svæði sem verða fyrir beinum áhrifum vegna landslags og ásýndar hefur ekki verið gefið hátt gildi skv. opinberum viðmiðum um landslag.
 • Óverulega neikvæð til talsvert neikvæð áhrif á landslag og ásýnd lands eftir því um hvaða landslagsheild er að ræða.


Niðurstaða Skipulagsstofnunar

 • „...telur Skipulagsstofnun ljóst að virkjun Þjórsár við Núp muni hafa í för með sér veruleg sjónræn áhrif á allstóru svæði“.
 • „Ásýnd Þjórsár neðan Hagalóns muni breytast mikið vegna minnkaðs rennslis og muni áhrif verða veruleg".
 • „Sjónræn áhrif af vegagerð og efnistöku verði lítil".

Niðurstaða Skipulagsstofnunar

Umfangsmestu áhrif virkjunarinnar á landslag verða í farvegi Þjórsár og við bakka hennar, sérstaklega annarsvegar við og í nánd við ármótin við Þverá, þar sem lónið fer að og yfir núverandi vegstæði Þjórsárdalsvegar, sem er ein aðalleiða inn á miðhálendið sunnanlands. Hinsvegar neðan stíflu þar sem rennsli Þjórsár skerðist verulega. Skipulagsstofnun telur að áhrif virkjunarinnar á landslag verði verulega neikvæð í ljósi þess að umfangsmiklu svæði verður raskað og mjög margir verða fyrir neikvæðum áhrifum vegna ásýndar- og yfirbragðsbreytinga auk þess sem áhrif af virkjuninni verða varanleg og óafturkræf. Mikilvægt er að ráðist verði í mótvægisaðgerðir vegna þessara neikvæðu áhrifa m.a. með útfærslu bakka og stíflugarða svo draga megi eins og kostur er úr manngerðri ásýnd lónsins auk annarra aðgerða sem fjallað er um í matsskýrslu Landsvirkjunar.

2003

Niðurstöður matsskýrslu

 • Sammögnuð áhrif af byggingu virkjunar á ferðaþjónustu metin lítil neikvæð en áhrif eru metin engin af rekstri virkjunarinnar.

2017

Niðurstöður matsskýrslu

 • Óverulega neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist af virkjunarmannvirkjum á athugunarsvæðinu öllu, mest næst virkjun vestan Þjórsár og upp með Þjórsárdalsvegi. Áhrif eru mestmegnis sjónræns eðlis.

Niðurstöður Skipulagsstofnunar

 • „Skipulagsstofnun telur líklegt að minnkun rennslis Þjórsár á stórum kafla ásamt veru­legum sjónrænum áhrifum af völdum stíflumannvirkja, lóna og haugsvæða valdi neikvæðum áhrifum fyrir ferðaþjónustu og upplifun ferðamanna sem fara um svæðið“.
 • „Skipulagsstofnun telur ljóst að fyrirhug­aðar framkvæmdir muni hafa nokkur áhrif á ferðamenn og ferðaþjónustu á svæðinu og að þau áhrif verði meiri þeg­ar horft er til framtíðarspár um þróun ferðaþjónustu".

Niðurstöður Skipulagsstofnunar

Áhrif Hvammsvirkjunar á ferðaþjónustu og útivist ráðast af áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda á landslag. Auk sjónrænna áhrifa framkvæmdanna á landslag munu þær einnig hafa áhrif á upplifun þeirra sem stunda útivist á svæðinu þar sem árniður í straumþungu fljóti víkur fyrir lóni og vatnslitlum farvegi á kafla neðan stíflu. Ásýnd umfangsmikils svæðis kemur til með að breytast í heild og mun einkennast að mannvirkjum Hvammsvirkjunar sem munu sjást víða að en einkum í mikilli nálægð frá veginum upp í Þjórsárdal, sem er ein aðalleið upp á hálendið, og heimilum íbúa og sumarhúsum í grennd við fyrirhugaðar framkvæmdir. Stofnunin undirstrikar mikilvægi mótvægisaðgerða sem fjallað er um í matsskýrslu Landsvirkjunar um að draga úr sjónrænum áhrifum framkvæmdanna. Skipulagsstofnun telur að fyrirhugaðar framkvæmdir séu líklegar til að hafa talsverð neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu vegna þessara breytinga sem munu verða á upplifun ferðamanna og þeirra sem stunda útivist á svæðinu.

Section #Endurskodunmatsaumhverfisahrifum
Segment

Endurskoðun mats á umhverfisáhrifum

Hvammsvirkjun, með uppsett afl allt að 93 MW, er matsskyld framkvæmd. Árin 2001-2003 var unnið mat á umhverfisáhrifum fyrir Núpsvirkjun: annars vegar allt að 150 MW virkjun í einu þrepi við Núp og hins vegar virkjun Þjórsár í tveimur þrepum með Hvammsvirkjun og Holtavirkjun. Skipulagsstofnun féllst á framkvæmdina og var úrskurðurinn staðfestur af Umhverfisráðuneytinu í apríl 2004. Á árunum 2006-2009 var unnið að útboðshönnun virkjunarinnar en vegna breytinga á raforkumarkaði var þeirri vinnu frestað. Framkvæmdir hófust því ekki innan tíu ára frá upphaflegu mati á umhverfisáhrifum. Í slíkum tilfellum getur Skipulagsstofnun ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu í heild eða að hluta, hafi forsendur breyst verulega á þeim tíu árum sem hafi liðið frá því að álit lá fyrir.

Árið 2015 hófst formlegt endurskoðunarferli vegna mats á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar, með aðkomu umsagnaraðila og almennings. Ferlinu lauk í desember 2015 þegar Skipulagsstofnun tók ákvörðun um að endurskoða skyldi mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar að hluta, þ.e. á ferðaþjónustu og útivist og á landslag og ásýnd lands. Fyrir aðra þætti voru að mati Skipulagsstofnunar ekki forsendur til að fara fram á endurskoðun á matsskýrslu skv. 12. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.

Section #
Segment

Ítarefni

Hér má sækja matsskýrslu Hvammsvirkjunar. Í kafla 7 má lesa nánar um heildaráhrif.

Í mati á umhverfisáhrifum frá árinu 2003 er niðurstöðum gerð skil í kafla 8. 

Matsskýrsla 2017  

22 MB PDF

Matsskýrsla 2003 

4 MB PDF