Section #
Segment

Hvammsvirkjun verður staðsett á einu stærsta orkuvinnslusvæði landsins, vatnasviði Þjórsár- og Tungnaár. Á svæðinu eru nú þegar sex aflstöðvar sem nýta fall Þjórsár, Tungnaár og Köldukvíslar og verður Hvammsvirkjun sjöunda og neðsta aflstöðin á svæðinu. Með virkjuninni hyggst Landsvirkjun mæta vaxandi orkuþörf í landinu, bæði til almennrar notkunar og iðnaðar.

Section #Stadsetningvirkjunar
Segment

Staðsetning virkjunar

Hvammsvirkjun er staðsett í neðri Þjórsá, um 15 kílómetra neðan við Búrfellsstöð. Hún mun nýta 32 metra fall árinnar frá Yrjaskeri ofan við bæinn Haga og niður fyrir Ölmóðsey ofan bæjarins Þjórsárholts. Vatni verður veitt inn í stöðvarhús í landi Hvamms en þaðan dregur virkjunin nafn sitt. Úr stöðvarhúsi fellur vatnið um jarðgöng, í frárennslisskurð og aftur út í farveg Þjórsár neðan við Ölmóðsey.

Segment
Yfirlitsmynd
1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15
 • 1 Hagalón

  Inntakslónið er 4 ferkílómetrar að flatarmáli með vatnsborð í 116 metra hæð yfir sjávarmáli. Rúmmál lónsins verður um 13,2 gígalítrar, meðaldýpi um 3,3 metrar og vatnsborð verður að mestu stöðugt.
 • 2 Stífla

  Farvegur er stíflaður rétt ofan Viðeyjar (Minnanúpshólma). Núpsstífla er 350 metra löng og nær hæst 18 metra hæð frá árbotni. Um er að ræða hefðbundna jarðvegsstíflu sem verður klædd með gróðri loftmegin svo hún falli betur að landslagi. Vatnsmegin verður ölduvörn, þ.e. grjótvörn, sem ver stífluna gegn öldu- og ísálagi.
 • 3 Flóðgáttir

  Flóðgáttir eru á austurbakkanum. Gáttirnar eru nýttar til að hleypa fram flóðvatni sem og að tryggja stöðugt vatnsborð í lóninu.
 • 4 Inntaksmannvirki

  Frá inntaki virkjunarinnar verður vatnið leitt um tvær 190 metra langar þrýstipípur að stöðvarhúsi. Fallið er 32 metrar. Í stöðvarhúsi knýr vatnið tvo 46,5 MW hverfla. Virkjað rennsli er 352 rúmmetrar á sekúndu.
 • 5 Stöðvarhús

  Stöðvarhús Hvammsvirkjunar verður að mestu niðurgrafið. Hæð þess frá aðkomuplani verður um 16 metrar og um 5 metrar yfir aðliggjandi landi. Í stöðvarhúsi knýr vatnið tvo 46,5 MW hverfla. Virkjað rennsli er 352 rúmmetrar á sekúndu.
 • 6 Tengivirki Landsnets

  Tengivirki verður staðsett undir Búrfellslínu 1 norðaustan við stöðvarhús. Það verður yfirbyggt, um 240 fermetrar og 8 metrar á hæð.
 • 7 Stíflu- og varnargarðar

  Stíflugarður á austurbakka lónsins verður um 3,5 kílómetra langur. Mest nær garðurinn um 10 metra hæð. Einnig verður um 500 metra varnargarður ofan við stöðvarhús, eða milli stöðvarhúss og inntaks. Útlit garðanna verður fellt að landinu í kring.
 • 8 Frárennslisgöng

  Frá stöðvarhúsinu fer vatnið um 1,2 kílómetra löng frárennslisgöng neðanjarðar.
 • 9 Frárennslisskurður

  Úr frárennslisgöngum rennur vatnið í 2 kílómetra langan frárennslisskurð. Skurðurinn endar í núverandi farvegi Þjórsár sunnan við Ölmóðsey.
 • 10 Aðkomuvegur

  Meginaðkoma að stöðvarhúsi verður af Landvegi, um heimreið að Hvammi. Þaðan verður lagður rúmlega 3 kílómetra langur vegur að stöðvarhúsinu.
 • 11 Stífla við Ölmóðsey

  Um 150 metra löng stífla verður byggð við Ölmóðsey.
 • 12 Þjórsárdalsvegur

  Vegurinn verður endurbyggður á milli Minni-Núps og Gaukshöfða á um 7,5 kílómetra kafla. Á rúmlega 5 kílómetra kafla færist veglínan um allt að 500 metra.
 • 13 Seiðafleyta og fiskistigi

  Sunnan Þjórsár verða fiskistigi og seiðafleyta sem greiða för göngufisks milli Hagalóns og árfarvegar neðan stíflu.
 • 14 Flóðvar

  Flóðvar er staðsett á vesturbakka árinnar og verður byggt úr jarðefnum, líkt og stífla og stíflugarðar.
 • 15 Búrfellslína 1

  Hliðra þarf legu Búrfellslínu 1 vestan við tengivirki. Fjögur möstur verða færð og tvö möstur við lónið munu hækka. Möstrum verður ekki fjölgað.
Section #Hagalon
Segment

Hagalón

Hvammsvirkjun er hönnuð fyrir allt að 93 MW afl og verður árleg orkugeta allt að 720 GWst.

Lón Hvammsvirkjunar heitir Hagalón. Í lónið rennur vatn sem þegar hefur verið nýtt til raforkuvinnslu í sex aflstöðvum ofar á vatnasviðinu. Hagalón verður myndað með stíflu í farvegi Þjórsár um 400 metrum fyrir ofan Viðey (Minnanúpshólma) og með stíflugörðum á austurbakka árinnar.

Lónið er 4 ferkílómetrar að flatarmáli. Lónið verður ekki nýtt til miðlunar á rennsli, heldur er um inntakslón virkjunar að ræða, og því verður lónhæð að mestu stöðug árið um kring. Vestan megin mun lónið afmarkast af Þjórsárdalsvegi, sem verður endurbyggður og færður nær farvegi Þjórsár á um 5,3 kílómetra löngum kafla.

Section #Framkvaemdasvaedi
Segment

Framkvæmdasvæði

Framkvæmdasvæðið afmarkast af landsvæðinu norðan og vestan við Skarðsfjall að farvegi Þjórsár. Svæðið er innan sveitarfélaganna Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra en flest mannvirki eru staðsett í því síðarnefnda. Mesta röskunin verður í landi Hvamms og þar hefur verið unnið að hönnun og staðsetningu mannvirkja í samstarfi við eigendur jarðarinnar. Landnýting á svæðinu tengist að mestu landbúnaði. Ferðaþjónusta er einnig á svæðinu. Sumarhús eru einnig í nágrenni fyrirhugaðrar virkjunar en stór hluti svæðisins er óbyggt land.

Byggingarefni verður að mestu uppgrafið úr stöðvarhússgrunni, göngum, stíflustæði, skurðstæði og úr lónstæði. Gert er ráð fyrir að grafa upp um 3,3 milljón rúmmetra af efni og að þörf verði á um 1,1 milljón rúmmetrum til mannvirkjagerðar. Sá uppgröftur sem ekki nýtist til fyllinga verður notaður í landmótun og jafnaður út á haugsetningarsvæðum.

Segment
Section #BudavegurogbruyfirThjorsa
Segment

Búðavegur og brú yfir Þjórsá

Nýr vegur, Búðavegur, verður lagður suður frá þéttbýlinu í Árnesi. Ný brú verður byggð yfir Þjórsá ofan við Búðafoss, í um 7 kílómetra fjarlægð vestan virkjanasvæðisins.

Segment
Segment

Framkvæmdir við nýjan veg og brú eru hluti af samkomulagi Landsvirkjunar við Skeiða- og Gnúpverjahrepp og Rangárþing ytra. Framkvæmdin verður á ábyrgð Vegagerðarinnar og munu Landsvirkjun og Vegagerðin sameiginlega annast fjármögnun, framkvæmd og skipulag verkefna.

Section #
Segment

Kynntu þér Hvammsvirkjun

Section #
Segment

Breytingar á framkvæmd frá árinu 2003

Árin 2001-2003 var unnið mat á umhverfisáhrifum fyrir Hvammsvirkjun. Eftir að tekið hafði verið tillit til helstu ábendinga sem komu fram í ferlinu, og nýrra rannsókna, voru ýmsar breytingar gerðar á hönnun virkjunarinnar.

Má þar nefna að rúmmál og yfirborðsflatarmál lóns hefur verið minnkað og munar þar mestu um færslu á þjóðvegi neðan og austan við bæinn Haga. Dregið hefur verið úr umfangi haugsvæða og sýnileika stöðvarhúss og annarra mannvirkja. Þá hafa bæst við mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum framkvæmdar á vatnalífríki.

Ítarlegra yfirlit yfir þróun hönnunar og framkvæmdaþátta er að finna í frummatsskýrslu.

Section #
Segment

Framkvæmdatími

Undirbúningur Hvammsvirkjunar miðar að því að þegar og ef tilskilin leyfi fyrir virkjuninni fást og ákveðið verður að ráðast í framkvæmdir, verði hægt að gangsetja hana þremur og hálfu ári síðar. Undirbúningur framkvæmdasvæðisins gæti fyrst hafist árið 2018.

Section #
Segment

Ítarefni

Hér má sækja matsskýrslu Hvammsvirkjunar.

Í kafla 2.4.6 er fjallað nánar um verndarsvæði og í kafla 2.5 um skipulag.

Matsskýrsla 2017  

22 MB PDF